Hvað er spil?

Verandi sérfræðingur um leiki (sem þjóðfræðingur) þá hef ég oft velt fyrir mér spurningum um þá flokka sem leikir skiptast í. Spil er einn af undirflokkum leikja. Borðspil er síðan einn undirflokkur spila og kortaspil annar. Við getum auðvitað haldið áfram að telja upp flokka en látum það bíða.

Í fyrra gaf ég út mitt fyrsta spil, #Kommentakerfið. Það var oft kallað borðspil en ekki af mér. Ég notaði orðið spil og ef ég hefði viljað vera nákvæmari þá hefði ég notað orðið kortaspil. En nákvæmni er ekki endilega gott fyrir markaðsstarf því maður er kannski bara að rugla fólk sem hefur aldrei velt þessu fyrir sér. Það er margt fleira sem hægt væri að kalla #Kommentakerfið. Partíspil er kannski mest lýsandi.

Í ár er ég að gefa út Látbragð. Þar er á ferðinni ákaflega gamall leikur með örlítið öðru sniði en það hefur áður þekkst á Íslandi. En það er hægt að spyrja sig hvort Látbragð sé spil. Ég hallast að því að kalla það bara leik. Þó við getum kallað spjöldin sjálf spil þá snýst Látbragð ekki um spjöldin heldur að leika það sem stendur á þeim. Ólíkt því sem gerist í #Kommentakerfinu þá gera spjöldin ekki neitt og þau eru ekki notuð gegn hver öðru.

En hvað þarf til að spil sé spil? Ég held að lykilatriðið sé allt það sem táknar spilara og árangur þeirra. Það geta t.d. verið spjöld og spilaborð. Það að skipta leikjum í umferðir þar sem spilarar skiptast á að gera er líka höfuðeinkenni spila.

Pictionary, sem snýst um að teikna, er meira leikur en spil. Hins vegar fylgir spilaborð sem gerir flokkunina flóknari. Margir spurningaleikir eru síðan frekar leikir en spil. Í Trivial Pursuit eru þó spilaborðið og kökurnar stór hluti af leiknum þannig að við getum kallað það spurningaspil frekar en leik.

Hlutverkaleikir (eins og Dungeons and Dragons og Askur Yggdrasill) eru stundum kölluð spunaspil. Ég á erfitt með að samþykkja það. Þó teningar og aðrir aukahlutir fylgi oft þá eru þeir ekki nauðsynlegir. Það sést auðvitað best á því sem er kallað “Live Action Roleplaying” eða LARP. Mér hefur líkað alltaf líkað við skilgreininguna á hlutverkaleikjum að þeir séu löggu og bófa leikir með reglum til að koma í veg fyrir rifrildin “Bangbang, þú ert dauður” – “Nei, ég er að það ekki”.

Fyrir flesta er ég væntanlega að gera einfalda hluti flókna en mér finnst áhugavert að reyna að skilgreina og skilja betur það sem við erum að tala um.

#Kommentakerfið

Stórfyndið og einfalt spil fyrir 3-10. Hver spilari fær 10 „komment“ á hendi. Í hverri umferð er einn ritstjóri sem leggur út „fyrirsögn“. Hinir spilararnir leggja síðan „komment“ í púkkið. Ritstjórinn velur kommentið sem honum þótti skemmtilegast í samhenginu og spilarinn sem lagði það út fær stig.

Hugmyndin kviknaði þegar mistókst að finna leið til að þýða hið stórfyndna spil Cards Against Humanity. Það bara virkar ekki sérstaklega vel á íslensku. Í kjölfarið kviknaði sú hugmynd að nota grunnkerfið sem Cards (ásamt mörgum öðrum spilum) byggir á og setja það upp sem kommentakerfi á netmiðli. Prufuspilun staðfesti að þetta yrði líklega fyndnasta spil sem hefur verið búið til á íslensku.

Í spilinu eru tvenns konar spjöld: 320 kommentaspjöld og 80 fyrirsagnaspjöld. Langflest kommentin eru byggð á raunverulegum athugasemdum frá íslenskum netverjum. Þannig fær maður þá raunveruleikatilfinningu sem fylgir óstjórnlegri reiði, stafsetningarvillum og handahófskenndri notkun á greinarmerkjum. Þó er rétt að nefna að jafnvel eðlilegustu athugasemdir geta orðið stórfyndnar þegar þær eru settar í rangt samhengi.

Spilið hentar 13 ára og eldri, það inniheldur nokkuð af dónalegum orðum sem flest grunnskólabörn þekkja.

Það tekur varla nema svona tvær mínútur að læra spilið og síðan getur skemmtunin hafist!